154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:33]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Stýrivextir Seðlabanka Íslands eru 9,25%. Það er fyrirsjáanlegt að fjölskyldur í landinu munu missa heimili sín vegna þess að þær ráða ekki við vaxtagjöld. Þetta fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir er ekki að berjast gegn verðbólgunni. Það er algjörlega hlutlaust og það er bara Seðlabankinn sem er að berjast gegn verðbólgunni á allan hátt. Heildarskuldir ríkissjóðs í árslok eru áætlaðar um 1.706 milljarðar kr. en voru áætlaðar 1.560 milljarðar kr. Áætlaður hallarekstur ríkissjóðs í ár er 45 milljarðar og það er áætlaður halli líka á næsta ári. Útlit er fyrir að vaxtagjöld á næsta ári aukist og verði 117 milljarðar kr. Eins og staðan er í dag þá er tíundi hluti allra tekna ríkissjóðs að fara í vaxtagreiðslur. Þetta fjárlagafrumvarp er ekki að berjast gegn verðbólgunni, eins og áður sagði, en grundvallaratriðið er að við beitum ríkisfjármálunum til að berjast gegn verðbólgunni til að ná henni niður strax. Það verður að gerast en því miður er þessi ríkisstjórn ekki að gera það. Það er það sem þessi fjárlög raunverulega fjalla um, þau eru algerlega hlutlaus. (Forseti hringir.) Þetta eru algerlega stefnulaus fjárlög.